Kirsuberjarækt

Kirsuberjarækt á hjara veraldar
Á Svanshóli í Bjarnarfirði norður á Ströndum eru ræktuð kirsuber í 360m2 gróðurhúsi. Mörgum kemur á óvart að finna kirsuberjarækt á hjara veraldar, en fjölmargir gestir leggja leið sína norður til að fá smakk af sumaruppskerunni. Hátindur kirsuberjauppskerunnar er frá 15. júlí til 10. ágúst.

Árlega gefa elstu kirsuberjatrén vel af sér. Heilmikil vinna er á bak við að rækta kirsuber, en tíðarfar og aldur trjáa hefur líka töluverð áhrif á uppskeru hvers árs. Fyrstu trén komu á Svanshól árið 2009. Flest árin eru mjög gjöful, en önnur ár eru eintómt bras. Trén blómgast í apríl og eftir þann tíma mega þau helst ekki verða fyrir áföllum, s.s. frosti. Eins þarf að passa upp á frjóvga blómin og til þess þarf aðstoð býflugna. Í framhaldinu þarf að hlúa vel að hverri plöntu, vökva hana með tugi lítra vatni og verja hana frá allskyns óværum allt árið í kring. 
Ávaxtatrén eru um 40 talsins og hægt er að finna ýmis yrki af eplum, plómum, perum og kirsuberjum, en einnig hindberjum, sólberjum, bláberjum, og líka fjölda blóma og grænmetistegunda. 

Gróðurhúsið er algjör sælureitur á sumrin og þar er gott að vera sama hvernig viðrar og gúffa í sig brakandi ferska og bragðmikla hollustu. Í upphafi var þessi ræktun áhugamál sem vatt upp á sig og nú gestum boðið heim, sem nýta tækifærið og fá sér ber og sultu í nesti beint frá býli. 

Viðbrögð gesta hafa verið með eindæmum góð og vinsældirnar hafa verið að aukast ár frá ári. 

Search